Viðtal Nonna Travel við Arnar Stein fararstjóra í ferð til Kína í september 2025
Arnar Steinn, þú ert kínverskufræðingur og hefur búið og ferðast mikið um Kína í mörg ár. Þú ert djúpt tengdur Kína, heillandi arfleifð þess, tungumáli, menningu og fólki. Þú ert einnig formaður kínversk-íslenska menningarfélagsins.
Nonni Travel er stolt af því að tilkynna að þú munt vera fararstjóri 15 daga hópferðar til Kína í september.
Við viljum gefa þátttakendum og áhugasömum tækifæri til að kynnast þér aðeins fyrirfram:
Mig langar að vita, hvernig byrjaði áhugi þinn á Kína? Hvað varð til þess að þú ákvaðst að verða kínverskufræðingur og helga hluta lífs þíns til að læra um og upplifa Kína og menningu þess?
Þegar ég var 6 ára gamall sagði ég öllum að ég kynni kínversku og bullaði bara hægri vinstri og sagði öllum að þetta væri kínverska. Ég hef ekki hugmynd um af hverju, en það er augljóst að ég hafði snemma áhuga á að læra tungumálið. Þegar ég var kominn á táningsaldur fór ég að hafa mikinn áhuga á kung fu kvikmyndum frá Hong Kong og síðar kvikmyndum eftir Akira Kurosawa. Fyrir mér var mikil dulúð í austrinu sem heillaði mig og ég fór að lesa ljóðabækur í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, bæði frá Kína og Japan.
Svo liðu árin og eftir að hafa klárað stúdentspróf á nýmálabraut frá MR, þá langaði mig mjög mikið til að læra nýtt tungumál og læra það til hlítar. Það var svo á kvikmyndahátið í kringum árið 2000 þegar ég sá myndina “Crouching Tiger, Hidden Dragon” að ég vissi að mig langaði að læra Mandarín, því ég var dáleiddur af hljómfalli og fegurð tungumálsins. Sem er frekar skondið, því eftir að ég fór að læra kínversku og horfði svo á myndina aftur mörgum árum seinna, þá uppgötvaði ég að flestir leikaranna töluðu ekki Mandarín sem móðurmál og voru með frekar slappan framburð á málinu!
En ákvörðunin var tekin og ég lenti í Kína í ágúst 2001 og ævintýrið hófst.
Var eitthvað við Kína sem vakti áhuga þinn sérstaklega, hvort sem það var tungumálið, menningin, sagan, nútímalífið eða eitthvað annað?
Allt við Kína vakti áhuga minn. Í byrjun var það hversu gjörólík menningin var frá því sem ég hafði vanist á Íslandi, þetta var algjörlega nýr heimur fyrir mér. Fljótlega tók matarástin við, ég fór að prófa mig áfram með allan þann ólíka mat sem er á boðstólum í Kína og varð algjörlega ástfanginn af matnum.
En ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem vakti áhuga minn sérstaklega, þá var það þegar ég var búinn að læra tungumálið í þónokkurn tíma og ég uppgötvaði að mikið af frösum og algengum málsháttum sem enn voru í daglegri notkun höfðu verið notaðir í mörg hundruð og jafnvel þúsundir ára!
Í Evrópu berum við mikla virðingu fyrir kínversku tungumáli, hvernig var það fyrir þig að læra kínversku? Er það eins erfitt og við höldum?
Mér fannst ekki erfitt að læra kínversku, en það krafðist mikillar vinnu, sérstaklega að læra táknin. Kínversk málfræði er mun einfaldari en íslensk málfræði og má nefna að í 4 ára BA námi, þá kláruðum við alla málfræðina á öðru ári!
Að því sögðu, þá er kínverska tungumálið svo djúpt og ríkt að það er æviverkefni að læra hana, en svo innilega þess virði!
Manstu eftir fyrstu heimsókn þinni til Kína? Hvar var hún og geturðu lýst fyrstu hughrifum þínum? Hvernig var tilfinningin að lenda í svo ólíkri menningu? Fannstu þig heima? Upplifðirðu menningarsjokk eða einhverjar áskoranir?
Ég hafði aldrei komið til Kína þegar ég tók þá ákvörðun að flytja þangað. Ég flaug fyrst til Hong Kong og tók rútu yfir landamærin inn í Kína, til borgarinnar Guangzhou, en þar átti ég heima næstu 5 árin. Fyrstu dagarnir voru eins og í draumi, það var svo heitt og rakt, borgin iðaði af lífi allan sólarhringinn og flest allt var mér mjög framandi. En mér fór mjög fljótlega að líða eins og blóm í eggi, sérstaklega þegar ég gat byrjað að tala kínversku og bjarga mér í borginni upp á eigin spýtur. Þetta voru einhver skemmtilegustu og ævintýralegustu ár ævi minnar og mér leið eins og heima hjá mér.
Ég fékk mögulega vægt menningarsjokk þegar ég kom út, en ég er svo forvitinn og ævintýragjarn að eðlisfari að ég drakk þetta bara allt í mig og naut hverrar mínútu. Það var hins vegar mun erfiðara að koma aftur til Íslands og laga mig að lífinu hér!
Að búa og ferðast í erlendum löndum og hitta fólk frá allt annarri menningu er oft mjög upplýsandi og snertir okkur djúpt. Það breytir okkur og sýn okkar á heiminn. Ég er viss um að þú hefur átt margar slíkar upplifanir, myndirðu deila einni af þessum sérstökum, snertandi eða jafnvel fyndnum upplifunum með okkur?
Ein af mínum uppáhalds minningum frá námsárunum í Kína var þegar ég var að ferðast í Guizhou héraði í kringum kínverska nýárið, sem er þeirra stærsta hátíð. Guizhou hefur löngum verið talið eitthvert fátækasta hérað Kína og það var sannarlega áþreifanlegt á þessum árum, þó margt hafi breyst síðan. Ég var staddur í örlitlu þorpi og var í gönguferð um akrana umhverfis þorpið að taka ljósmyndir. Kom þá aðvífandi bóndi og gaf sig á spjall við mig. Hann spurði hvort ég væri til í að taka myndir af hans mestu gersemum: hestinum sínum og elsta syni. Ég féllst að sjálfsögðu á það og skaut 2 filmur af myndum af syninum og hestinum. Bauð hann mér þá heim til sín til að þiggja veitingar. Það var lítið tréhús með moldargólfi og ógrynni af börnum. Þau buðu mér soðið vatn og sykurreyr til að naga, það besta sem þau gátu boðið. Þau höfðu aldrei séð útlending áður og voru mjög forvitin og áttum við saman yndislega stund. Svo kom í ljós að ég gat ekki framkallað myndirnar á staðnum og því stakk ég upp á að ég myndi framkalla myndirnar þegar ég kæmi heim og svo senda þeim. Þá flæktist málið, því bóndinn kunni ekki að skrifa, nema nafnið sitt og var heillengi að velta því fyrir sér hvert heimilisfangið hans væri. Það endaði með því að þegar ég kom heim, setti ég tæplega 50 myndir í umslag sem á stóð: “Til herra Zhangs, sem býr í litla húsinu vestan megin við gömlu verksmiðjuna með stóra strompinum”. Ég vona innilega að hann hafi fengið myndirnar.
Hvað heillar þig við að ferðast um Kína í dag? Hvaða upplifanir geta þátttakendur okkar virkilega hlakkað til?
Það sem heillar mig við að ferðast í Kína í dag er að maður getur heimsótt staði þar sem sagan er enn ljóslifandi, eins og að sjá leirhermennina nálægt gömlu höfuðborginni Xian, og sjá svo borgina Xian í sínum nútímalega búningi, en enn með einhverja elstu og best varðveittu borgarmúra í Kína. Svo elska ég að borða á ferðalögum í Kína og legg mikið upp úr því að fá sem bestan og fjölbreyttastan mat.
Það sem þátttakendur í ferðinni geta látið sig hlakka til að upplifa er sagan, náttúrufegurðin, maturinn, menningin og væntanlega mun það koma mörgum á óvart, sérstaklega þegar við heimsækjum Beijing og Shanghai, hversu ótrúlega nútímavæddar og í raun framtíðarlegar þessar borgir eru.
Kína getur verið krefjandi land að ferðast til fyrir evrópska ferðamenn (tungumálaerfiðleikar, almenningssamgöngur, matur, menningarmunur o.s.frv.). Hver er kosturinn við að upplifa Kína í skipulagðri hópferð eins og okkar?
Ég myndi fyrst og fremst segja að kosturinn við að ferðast með okkur séu þægindin og áhyggjuleysið, að geta einbeitt sér algjörlega að því að njóta hverrar mínútu í ferðinni. Svo held ég þátttakendum muni þykja mjög gott að geta rætt við undirritaðan um allt sem viðkemur Kína, kínverskunni og þar fram eftir götunum, því margt mun vera þeim framandi og óteljandi spurningar munu vakna, sem ég mun að sjálfsögðu gera mitt besta að svara!
Ferðaáætlun okkar til Kína var búin til í samstarfi við þig og ferðasérfræðing Nonna Travel til að sameina einstöku upplifanirnar sem Kína hefur upp á að bjóða. Hún inniheldur nokkra af mikilvægustu sögulegu og menningarlegu stöðunum, náttúruperlur og margar ekta innsýn í mat, menningu og sögulegt og nútímalegt líf. Geturðu tekið saman hvað þátttakendur okkar geta hlakkað til?
Saga og menning: við heimsækjum Kínamúrinn og leirhermennina í Xian, sem eru ógleymanlegar upplifanir. Þegar kemur að náttúrufegurð, þá er óhætt að segja að Guilin og Yangshuo séu með fegurstu náttúruperlum veraldar. Við munum snæða á framúrskarandi veitingastöðum og kynnast ólíkum skólum kínverskrar matargerðarlistar, en þátttakendum mun einnig gefast næg tækifæri til að fara í eigin leiðangra og prófa það sem þau vilja! Svo er ég nokkuð viss um að stórborgirnar Shanghai og Beijing eigi eftir að koma fólki á óvart, en nútímalegri og jafnvel framtíðarlegri borgir er vart að finna í heiminum í dag.
Þakka þér kærlega fyrir innsýn þína.
Við hlökkum svo til að þú verðir fararstjóri okkar í 15 daga draumaferð til Kína frá 9. til 23. september 2025
Nánari upplýsingar: https://nonnitravel.is/island/draumaferd-til-kina/
Ferðadagar: 9. til 23. september 2025
Bókunartímabil fyrir 10 júlí 2025
Til að fá nánari upplýsingar, spurningar eða bókanir endilega hafið samband í síma 4611841 eða sendið okkur tölvupóst á netfangið nonni@nonnitravel.is
Fararstjóri: Arnar Steinn Þorsteinsson

Fararstjóri í ferðinni verður kínverskufræðingurinn Arnar Steinn Þorsteinsson, sem bjó í Kína til margra ára, talar kínversku og hefur mikla reynslu af ferðalögum í Kína og kínverskri menningu. Arnar er starfandi formaður kínversk íslenska menningarfélagsins.